Ragnhildur Þrastardóttir Helgi Bjarnason
„Það er alveg ljóst að þegar álagið er sem mest spilar það inn í hættuna á frávikum. Ég held að það sé erfitt að fullyrða um það hvort þetta hafi áhrif annars staðar, en alvarlegum atvikum, eins og þau eru skilgreind samkvæmt sérstöku atvikaskráningarkerfi, hefur ekki fjölgað.“
Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, þegar hann er spurður í Morgunblaðinu í dag hvort rekja megi dauðsföll til álags á bráðamóttöku. Hann tekur fram að dauðsfall sem varð í kjölfar þess að maður var sendur of snemma heim af bráðamóttöku sé til skoðunar á spítalanum.
„Fyrir það fyrsta vil ég segja að hugur okkar er hjá aðstandendum. Það er alveg ljóst að hvernig sem þessu máli, sem er í skoðun, er háttað þá er hætta á frávikum í miklu álagi. Það er auðvitað áhyggjuefni sem og aðstæður allar á bráðamóttöku þegar verst lætur,“ segir Páll.
Atvikið var ekki skráð sem alvarlegt atvik. Páll segir að ýmsir sérstakir þættir, sem hann útskýrir ekki sérstaklega, hafi valdið því að atvikið hafi ekki verið skráð en það sé til skoðunar hvers vegna nákvæmlega það hafi ekki verið gert.