Á síðasta ári barst Vinnumálastofnun 21 tilkynning um hópuppsögn, þar sem 1.046 manns var sagt upp störfum. Þetta eru mestu hópuppsagnir síðan 2009 en þá misstu 1.790 vinnuna í slíkum uppsögnum.
Þetta kemur fram í samantekt sem stofnunin hefur birt á vef sínum. Flestir misstu vinnuna í flutningum, 540 eða tæp 52% allra hópuppsagna á árinu. Þar er um ræða afleiðingar af gjaldþroti flugfélagsins Wowair. Í byggingariðnaði misstu 104 vinnuna, eða um 10%, og 102 í fjármála- og vátryggingarstarfsemi eða tæp 10%.
Rúmlega helmingur allra tilkynntra hópuppsagna var á höfuðborgarsvæðinu, um 37% á Suðurnesjum en síðan mun færri á landsbyggðinni, 4% á Vesturlandi, 3,5% á Suðurlandi og 2,4% á Norðurlandi eystra.
Hópuppsagnirnar, sem tilkynntar voru í fyrra, komu flestar til framkvæmda í maí sama ár, 307, síðan 210 í júlí og 129 í nóvember. Á þessu ári koma 44 uppsagnanna frá því í fyrra til framkvæmda í janúar, 59 í febrúar, 32 í mars, 5 í apríl og 87 í maí.