Samninganefndir Sameykis, stærsta aðildarfélags BSRB, ætla að reyna til hins ýtrasta að ná samningum á samningafundum sem boðaðir hafa verið á næstunni og jafnframt að meta hvort grípa þurfi til aðgerða.
Þetta kemur fram í frétt um stöðu kjaraviðræðna á vef félagsins. Samninganefndirnar eru komnar á fullt aftur eftir stutt jólahlé og hafa þegar fundað með Reykjavíkurborg og fjölmargir fundir eru fyrirhugaðir í vikunni með fleiri viðsemjendum.
„Eftir næstum 10 mánaða samningalotu höfum við einungis náð hænuskrefum í átt að samningum. Eins og áður sagði munu fundir næstu daga skera úr um það hver næstu skref verða. Boðað hefur verið til fjölmenns trúnaðarmannafundar síðar í mánuðinum þar sem kjaramálin og mögulegar aðgerðir munu verða meginumræðuefnið og þá munu viðræðu- og samninganefndir einnig funda á næstu dögum,“ segir í umfjölluninni.