Félag almennra lækna og Félag sjúkrahúslækna lýsa yfir þungum áhyggjum af viðvarandi óviðunandi og stöðugt versnandi ástandi á Landspítala. Segja þau hættuástand fyrir löngu vera daglegan veruleika á deildum spítalans. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi félaganna í gær.
Í ályktuninni segir einnig að fjöldi bráðveikra einstaklinga sé jafnvel dögum saman í óviðunandi aðstæðum á stofu með fjölda annarra og á göngum spítalans. Þá segir að ástandið sé fullkomlega óboðlegt frá öllum hliðum séð og hafi neikvæð áhrif á líðan og öryggi sjúklinga og spilli möguleikum á eðlilegri faglegri þjónustu.
Þá segir í ályktuninni að ástandið geri starfsfólki ókleift að sinna mikilvægasta hlutverki spítalans, sem sé kennsla og vísindastarf. Skora félögin á stjórnvöld, yfirstjórn sjúkrahússins og embætti landlæknis að axla ábyrgð á ástandinu og finna viðunandi lausn til skemmri og lengri tíma.
Í gær lýstu bæði stjórn læknaráðs Landspítala og vaktstjórar hjúkrunar bráðadeildar G2 á Landspítala áhyggjum af ástandi á bráðadeild sjúkrahússins.