„Ég vil ekki hljóma eins og ég sé að hóta því að hætta en það verður mjög þungt að reka miðilinn án styrkja,“ segir Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri netmiðilsins Fótbolta.net. Vefmiðilinn óskar eftir styrkjum frá lesendum sínum.
Hafliði hefur ítrekað bent á að fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, skekki samkeppnisstöðu miðilsins enda fær hann enga endurgreiðslu ólíkt mörgum samkeppnismiðlum.
Samkvæmt frumvarpinu geta ritstjórnir fengið allt að 18% af ritstjórnarkostnaði endurgreiddan og hafa 400 milljónir verið eyrnamerktar í fjárlögum ársins til stuðnings við fjölmiðla, þó ekki alla fjölmiðla eins og Hafliði bendir á.
Hafliði segist fara svipaða leið og Kjarninn eða Guardian þar sem lesendum er boðið að styrkja Fótbolta.net um ákveðið háa upphæð á mánuði. Hann segir að sér hugnist ekki að gera Fótbolta.net að áskriftarmiðli:
„Við viljum að lesendur hafi alveg fullan aðgang að vefnum, óháð því hvort þeir taki þátt eða ekki.“
„Við höfum óskað eftir því að fá fundi með þingmönnum og ráðherra en það hefur ekki verið neinn vilji til þess að breyta neinu í frumvarpinu.“
Hafliði skrifar pistil á Fótbolta.net í dag þar sem hann segir meðal annars að hart sé sótt að íþróttaumfjöllun á Íslandi og komandi fjölmiðlalög séu enn meiri ógn við umfjöllunina. Þrátt fyrir erfiða stöðu segir Hafliði að miðillinn muni komandi standandi út úr þessum ólgusjó og ætlunin sé að auka frekar í umfjöllun.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að fótboltaáhugafólk sjái af einhverjum aurum til stuðnings miðlinum segist Hafliði vera það:
„Ég er nokkuð bjartsýnn. Við höfum fengið mikla samúð vegna þessa máls og út frá því er ég mjög jákvæður.“