„Sjór flýtur um allt“

Starfsmenn reyna að breyta endurvinnsluhafinu aftur í endurvinnslustöð.
Starfsmenn reyna að breyta endurvinnsluhafinu aftur í endurvinnslustöð. mbl.is/Eggert

„Þetta er eitthvað sem er í meira lagi núna,“ segir Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu, við mbl.is. Móttaka sorps á endurvinnslustöðina í Ánanaustum er takmörkuð í dag vegna þess að sjór flæddi inn á stöðina í morgun.

Fram kemur á vefsíðu Sorpu að sjórinn hafi flætt inn á stöðina „með tilheyrandi vandræðum“ eins og það er orðað. Allt er á floti á svæðinu, sandur, þari og sjór úti um allt. 

Girðingin brotnaði, eins og sjá má.
Girðingin brotnaði, eins og sjá má. mbl.is/Eggert

Guðmundur segir að ástæðan fyrir þessu sé óheppileg vindátt og há sjávarstaða. „Þegar vindur stendur svona að vestan eins og hann gerði í fyrradag, gær og dag og sjávarstaða er há þá getur það gerst að sjór gangi inn á stöðina.“

Ágangur sjávar er óvenjumikill núna að mati Guðmundar en milli endurvinnslustöðvarinnar og sjávar er grjótgarður sem á að koma í veg fyrir að einmitt þetta gerist.

Unnið er að því að hreinsa svæðið.
Unnið er að því að hreinsa svæðið. mbl.is/Eggert

Eitthvert tjón hefur orðið vegna flóðsins en of snemmt er að segja til um hversu mikið það er. „Það er fyrst og fremst að girðingin brotnaði og inn á stöðina kom sjór, sandur og grjót. Niðurföll stífluðust og sjór flýtur um allt. Einnig eru smá skemmdir á húsi á svæðinu,“ segir Guðmundur en starfsmenn í Ánanaustum eru byrjaðir að hreinsa svæðið. 

Krafturinn í briminu var gríðarlegur í nótt.
Krafturinn í briminu var gríðarlegur í nótt. Ljósmynd/Þráinn Sveinbjörnsson

Guðmundur vonast til þess að það muni ekki flæða meiri sjór inn á stöðina í dag. Gul viðvörun er þó í gildi á höfuðborgarsvæðinu vegna veðurs en Guðmundur segir að áttin sé suðvestlæg og álagið ætti af þeim sökum að verða minna. 

Mikil vinna beið starfsmanna Sorpu í Ánanaustum í morgun.
Mikil vinna beið starfsmanna Sorpu í Ánanaustum í morgun. Ljósmynd/Þráinn Sveinbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert