Vilja reisa 100 herbergja hótel á Kjalarnesi

Kjalarnes og Grundarhverfi.
Kjalarnes og Grundarhverfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Plúsarkitektar ehf. hafa hug á að reisa allt að 100 herbergja hótel, auk 12 stakstæðra húsa sem verða leigð út sem gistirými, í Nesvík á Kjalarnesi.

Land Nesvíkur er um 2,5-3 kílómetra frá Grund­ar­hverfi.

Fram kemur í fundargerð skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar að leitað verður umsagna um lýsingu að deiluskipulagi hjá Skipulagsstofnun, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Vegagerð og íbúaráði, auk þess að kynna hana almenningi.

Haft verði samráð við íbúa frá fyrstu stigum

Í bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins kemur fram að íbúum í nágrenninu sé ekki kunnugt um þessar hugmyndir og er borgin hvött til að hafa íbúa með í ráðum á fyrstu stigum og boða til fundar vegna þess.

„Með því að gera þetta strax á fyrstu stigum er dregið úr líkum þess að óánægja skapist síðar og kvartanir og að fólki finnist sem ekki hafi verið haft við sig viðhlítandi samráð. Þetta verklag ætti að vera meginreglan,“ segir í bókuninni.

Í gagnbókun fulltrúa Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar kemur fram að meginreglan sé að hafa samráð á fyrstu stigum skipulags.

„Hér er verið að stíga fyrsta skrefið í löngu samráðsferli við íbúa, hagsmunaaðila og íbúaráð. Málið verður kynnt opinberlega og í nágrenninu á öllum stigum málsins.“

Fornleifar við sjávarbakkann

Fram kemur í skipulagslýsingu að flestar fornleifar á svæðinu og þær umfangsmestu séu við sjávarbakkann. Þar sé ekki ráðgerð nein mannvirkjagerð, segja landeigendur. Ekki er þó útilokað að á einhverjum stöðum muni fyrirhuguð byggð rekast á minjar. 

Árið 2018 fengu hugmyndir land­eig­enda í Nes­vík um upp­bygg­ingu nýrr­ar byggðar með allt að 600 íbúðum á svæðinu ekki hljóm­grunn á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Meiri­hlut­inn staðfesti til­lögu skipu­lags­full­trúa borg­ar­inn­ar sem lagði til að hug­mynd­inni yrði hafnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert