Þau sem sluppu óslösuð eða með minni háttar áverka frá rútuslysinu sem varð skammt frá Blönduósi síðdegis í dag fá næturskjól á Blönduósi í nótt.
Þetta staðfestir Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð og aðgerðastjórn á Sauðárkróki hefur verið lokað.
Rúta með 49 háskólanemum og bílstjóra innanborðs valt skammt frá bænum Öxl sunnan við Blönduós og hafnaði á hvolfi síðdegis í dag. Þrír voru fluttir með þyrlu á slysadeild Landspítalans í Fossvogi en aðrir sluppu ýmist ómeiddir eða með vægari áverka á borð við beinbrot og skrámur.
Hlúð var að þeim minna slösuðu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.