Minnast Guðrúnar með litríkum sokkum

Ljóst er að Guðrún Ögmundsdóttir snerti líf margra og hafa …
Ljóst er að Guðrún Ögmundsdóttir snerti líf margra og hafa fjölmargir minnst hennar á samfélagsmiðlum í dag. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Guðrún Ögmundsdóttir, borgarfulltrúi og fyrrverandi alþingiskona, var borin til grafar í dag. Útför hennar fór fram frá Hallgrímskirkju í morgun, en í dag hafa margir minnst Guðrúnar með ljósmyndum af litríkum sokkum á samfélagsmiðlum. 

Guðrún lést á líknardeild Landspítalans að morgni gamlársdags eftir stutta og snarpa baráttu við krabbamein. 

Guðrún kom víða við á lífsleiðinni og hlaut ótal viðurkenningar fyrir brautryðjandastörf í þágu mannréttinda, meðal annars riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2019 fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks. 

Fjölmargir hafa minnst Guðrúnar á samfélagsmiðlinum í dag og hafa margir birt myndir af litríkum sokkum undir myllumerkinu #þorumaðverahamingjusöm, Guðrúnu til heiðurs. Í veikindum sínum birti Guðrún iðulega myndir af litríkum sokkum, „sokkasólskin“ eins og hún orðaði það sjálf, og skrifaði undir eins og henni einni var lagið „Þorið að vera hamingjusöm og þorið að njóta, knús og kramm inn í daginn.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er á meðal þeirra sem minntust Guðrúnar með því að klæðast litríkum sokkum, en það gerðu Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, og Sigþrúður Ármann, formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar, einnig. 

Athafnakonan og forsetaframbjóðandinn Halla Tómasdóttir klæddist einnig litríkum sokkum Guðrúnu til heiðurs í dag og þakkaði henni fyrir að bæta heiminn.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Sjálfstæðisflokksins, minntist Guðrúnar einnig með litríkum sokkum í Abú Dhabí og birti með færslu sinni skjáskot af samskiptum þeirra frá árinu 2012 um eldamennsku. 







mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert