Áætlað er að tjón það sem varð í óveðrinu sem skall á í desember muni að minnsta kosti kosta vel á annan milljarð króna. Kostnaðurinn gæti orðið töluvert meiri og jafnvel skipt milljörðum samkvæmt athugunum Morgunblaðsins.
Stofnanir, sveitarfélög, tryggingafélög og fleiri eru að safna saman upplýsingum um tjónið auk starfshóps forsætisráðherra sem fundar nú með fulltrúum fyrirtækja og sveitarfélaga, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í blaðinu í dag.
Er mesta tjónið í veðurhamförunum vegna bilana á raforkukerfinu og afleiðinga þeirra en Landsnet áætlar að kostnaður við viðgerðir á flutningskerfinu verði rúmar 300 milljónir króna. Mesta tjónið hjá einstaklingum er í sveitunum, sér í lagi hjá bændum en talið er að liðlega 100 hross hafi drepist á Norðurlandi vestra.