„Alveg galið að ætla að loka þessum flugvelli“

Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar, segir öflugt slökkvilið, björgunarsveitir …
Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar, segir öflugt slökkvilið, björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn ekki duga ef ekki er hægt að koma slösuðum undir læknishendur. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum tuðað yfir þessu í mörg ár. Það segir sig sjálft að það er alveg galið að ætla að loka þessum flugvelli og láta hann drabbast niður,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, formaður byggðaráðs Blönduósbæjar, í samtali við mbl.is um ástand flugvallarins á  Blönduósi, en þrír voru fluttir með þyrlu til Reykjavíkur frá flugvellinum eftir að rúta valt í gær.

„Þetta er eini flugvöllurinn sem er við þjóðveg eitt milli Reykjavíkur og Akureyrar. Isavia, að mér finnst, er að reyna að loka honum. Þeir stilla ekki einu sinni aðflugshallaljós svo hægt sé að nota hann. Það varð tjón á honum í óveðrinu fyrir jól, þá brotnaði rúða í flugturninum og fylltist af snjó. Þeir sjá ekki einu sinni sóma sinn í að laga það,“ segir Guðmundur.

Allar heiðar lokaðar

Hann bendir á að um 700 þúsund bílar fari um þjóðveg eitt á Norðurlandi vestra á ári og að um sé ræða almannahagsmuni að halda flugvellinum í nothæfu ástandi. „Þetta er gríðarlega stórt innviðamál fyrir þessi samfélög úti á landi. En ekki bara fyrir þau – allir sem eru á leið um þjóðveg eitt á Norðurlandi vestra, þeir eða þeirra ættingjar gætu þurft að reiða sig á þennan flugvöll. Er Isavia bara fyrir stóru flugvellina eða ber þeim að huga að þessum innviðum samfélagsins?“ spyr Guðmundur.

Þá hafi færð á vegum undanfarið varpað ljósi á alvarleika málsins sérstaklega ef litið er til þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á sviði heilbrigðismála, að mati Guðmundar. „Ef maður horfir til þess hvernig færðin hefur verið frá því í desember hafa allir fjallvegir í kringum okkur verið meira og minna lokaðir. Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði. Hvað á að gera við öll slys sem verða á þjóðveginum ef maður kemst hvorki lönd né strönd? Ef á að draga úr þjónustu úti á landi og færa alla þjónustu á Landspítalann, hvernig á fólk að komast þangað þegar heiðarnar eru lokaðar?“

Hann segir byggðina bera skyldu til þess að tryggja að viðbragðaðilar séu með getu til þess að sinna, ekki bara verkefnum heimabyggðar, heldur einnig þeim verkefnum sem fylgja þjóðveginum. „Við erum að styrkja og efla slökkviliðið, við erum með öflugar björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn. En það eitt og sér bjargar ekki málunum ef við komum ekki frá okkur fólkinu sem er slasað og þarf undir læknishendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert