„Ég mun að sjálfsögðu taka málið upp í borgarstjórn enda er þarna verið að byrja á öfugum enda. Það er ekki heil brú í svona vinnubrögðum,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta er ósátt við úthlutun tveggja lóða fyrir fjölbýlishús í Skerjafirði en tilboð í lóðirnar voru opnuð í vikunni hjá Reykjavíkurborg. Hún gagnrýnir að ekki hafi farið fram umhverfismat á landfyllingu í hverfinu og lóðirnar hafi verið auglýstar áður en vinnu við deiliskipulag sé lokið. Þá telur hún að ekki hafi verið haft samráð við íbúa en á sama tíma fái lóðarhafar að taka þátt í vinnu við deiliskipulag.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag hafnar Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs, gagnrýni Mörtu. „Umrætt umhverfismat á einungis við strandlengjuna en ekki þennan hluta skipulagsins þannig að annaðhvort er verið að slá ryki í augun á fólki eða Marta talar gegn betri vitund,“ segir hún. Sigurborg segir jafnframt að rammaskipulag hafi verið kynnt í þaula og deiliskipulag svæðisins verði það líka.