Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur sótt um embætti ríkislögreglustjóra, en umsóknarfrestur rann út í gær. Sigríður staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en hún sendi starfsfólki sínu póst fyrr í dag þar sem hún greindi frá umsókninni. Fyrst var sagt frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Í pósti Sigríðar til samstarfsfólksins kemur meðal annars fram að meginástæða þess að hún sæki um sé að hún telji sig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á störfum lögreglu, bæði á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Segist hún vilja leggja krafta sína í að efla löggæslu í landinu ef af verði.