Vita ekki að hann er Íslendingur

„Þegar ég sem laglínur og sem textann eftir laglínunum kemur …
„Þegar ég sem laglínur og sem textann eftir laglínunum kemur textinn bara í hausinn á mér. Ég þarf ekki einu sinni að hugsa um það,“ segir Ásgeir, 18 ára tónlistarmaður frá Sauðárkróki sem hefur slegið í gegn á Spotify. Instragram

Tónlistarmaðurinn Ásgeir Bragi Ægisson sem gengur undir listamannsnafninu Ouse, 18 ára drengur frá Sauðárkróki, nýtur gríðarlegra vinsælda á tónlistarveitunni Spotify þar sem tæplega 600 þúsund manns hlusta reglulega á tónlistina hans en hún var spiluð yfir 18 milljón sinnum á tónlistarveitunni árið 2019.

Ásgeir segist í samtali við mbl.is ekki vera með aðgang að stúdíói heldur semur hann og vinnur alla tónlist sína í svefnherberginu. Hann helgar líf sitt tónlistinni í dag og stefnir á að gera hana að lifibrauði til framtíðar, en nú ver hann tveimur til sex tímum á dag í tónlistarsköpunina. 

Aðdáandi ætlar að fá sér húðflúr af plötunni

Flestir hlustendurnir eru að sögn Ásgeirs erlendis frá en yfir 80% þeirra eru frá Bandaríkjunum þar sem tónlist af þessu tagi, sem skilgreinist sem tilfinningarapp eða „emo rapp“, er ákaflega vinsæl. 

Þá hafa fleiri en fimm og hálf milljón manns hlustað á lagið „Lovemark“ sem er vinsælasta lag Ouse á Spotify en lagið kom fram á fyrstu plötu Ouse í fullri lengd, „Loners Diary“, í desember 2018.  

Segir Ásgeir að platan hafi gengið vel og sé enn að vekja athygli. Hann segist til að mynda nýlega hafa fengið skilaboð frá aðdáanda sem ætlaði að fá sér húðflúr af plötualbúminu.

„Það er dálítið klikkað,“ segir hann. 

Vinsældirnar megi rekja til tölvuleikjaspilara

Vinsældirnar rekur Ásgeir meðal annars til þess að afar vinsæll tölvuleikjaspilari, sem streymir spilun sinni á tölvuleiknum Fortnite í gegnum streymisveituna Twitch, notaði tónlist Ouse í undirspil og vakti það athygli á honum.

„Eftir þetta byrjuðu fleiri og fleiri að taka eftir mér. Ég komst inn á alls konar lagalista og Youtube-rásir fóru að koma lögunum mínum á framfæri,“ segir Skagfirðingurinn ungi.  

„Ein stór Youtube-rás sem heitir „Promoting Sounds“ er búin að hjálpa mér mikið. Þar birtist til dæmis lagið mitt „Lovemark“. Það var byrjunin á því hvernig það varð svona vinsælt,“ segir Ásgeir.

Hlusta á Ouse án þess að vita að hann er Íslendingur

Ásgeir segist hingað til ekki hafa fengið mikla athygli á Íslandi en kveðst vita til þess að margir Íslendingar hafi hlustað á tónlistina án þess að gera sér grein fyrir að Íslendingur sé á bak við hana. 

„Á Sauðárkróki eru krakkar að hlusta á tónlistina mína og þeir vita ekki að þetta er strákur frá Sauðárkróki. Þeir hafa bara ekki hugmynd um það. Það vita ekkert rosalega margir að þetta er Íslendingur,“ segir hann.

„Ég heyrði að vinir mínir voru búnir að láta litlu systkini sín vita að þetta væri ég. Þau höfðu ekki hugmynd um það. Vinur minn labbaði til dæmis bara inn á litla bróður sinn að spila Fortnite og „blasta“ tónlistinni minni. Hann spurði: „Veistu hver þetta er?“ og lét hann vita að þetta væri vinur hans. Bróðirinn var mjög hissa,“ segir Ásgeir og hlær.

Sjálfur segist Ásgeir vera mikill tölvuleikjaspilari en listamannsnafnið Ouse, sem er borið fram sem „Ás“, kom að sögn Ásgeirs fyrst til sögunnar vegna tungumálaörðugleika erlendra vina sem spiluðu tölvuleiki með honum. Þeir áttu að sögn erfitt með að bera fram nafnið Ásgeir. 

„Ég stytti það því bara niður í „Ás“ og skrifaði það öðruvísi. Svo varð þetta listamannsnafnið mitt líka,“ segir hann. Hann segist ekki vita til þess að fólk tengi tónlist hans beint við tölvuleiki þrátt fyrir vinsældir hennar meðal tölvuleikjaspilara.

„Kannski tengja krakkar sem spila mikið tölvuleiki við mig þar sem ég spila mikið tölvuleiki,“ segir hann.

Tilbúinn að herja á íslenska markaðinn

Ásgeir segist vera farinn að huga að því að koma sér á framfæri á íslenskum markaði og vinnur nú að EP-plötu á íslensku en hann hefur hingað til aðeins samið texta á ensku. Vonast hann til að ná að gefa plötuna út á næstu þremur til fjórum mánuðum. 

Hann segist auk þess vera farinn að vinna með fleiri íslenskum tónlistarmönnum og nefnir meðal annars Hugin, sem er vinsæll íslenskur tónlistarmaður og rappari. „Ég fór í stúdíóið hjá Hugin um daginn og við vorum eitthvað að brasa,“ segir Ásgeir.

Tónlistin í blóð borin

Spurður um það hvernig hann fari að því að semja tónlist segir Ásgeir tónlistina vera honum í blóð borna og bendir á að hann hafi alltaf alist upp í kringum tónlist en þess má geta að faðir hans er fjöllistamaðurinn Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson. 

„Þetta er bara mjög mikið í fjölskyldunni minni. Frá því ég var lítill hef ég alltaf getað tekið upp píanóið og byrjað að spila. Þannig að þetta er rosalega mikið í blóðinu. Það er eiginlega bara komið í vöðvaminnið þegar ég er að gera tónlist.“

„Þegar ég sem laglínur og sem textann eftir laglínunum kemur textinn bara í hausinn á mér. Ég þarf ekki einu sinni að hugsa um það,“ útskýrir Ásgeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka