Gul viðvörun um land allt á morgun

Gul viðvörun er í gildi vegna veðurs víða um landið, …
Gul viðvörun er í gildi vegna veðurs víða um landið, en gildistími viðvörunarinnar á flestum stöðum er frá mánudegi til þriðjudags. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir vegna veðurs eru um allt land nema á höfuðborgarsvæðinu. Margar þeirra taka þó ekki gildi fyrr en á morgun og sumar á þriðjudag. 

Mikil vetrarfærð er um mestallt landið og víða er ófært á Vestfjörðum. Éljagangur hefur verið um sunnan- og suðvestanvert landið í dag. Á Suðvesturlandi er snjókoma, snjóþekja og hálka á vegum, allt frá Suðurnesjum og Reykjanesbraut austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. 

Á Vesturlandi er víða nokkuð stífur vindur og blint. Fróðárheiði er lokuð og í Svínadal er stórhríð og þæfingsfærð. Á Vestfjörðum er víða ýmist ófært eða lokað og mokstur liggur niðri. Þröskuldar í Arnkötludal eru lokaðir og þá er ófært og hefur mokstri verið hætt í Súgandafirði. Á Kletthálsi er ófært og stórhríð. Lokað er um Flateyrarveg og Steingrímsfjarðarheiði. Varúðarstig er vegna hugsanlegra snjóflóða á Súðarvíkurhlíð, en vegurinn er opinn. 

Á Norðurlandi er víða talsverður skafrenningur og sums staðar þæfingsfærð. Þá er á Norðausturlandi víðast hvar hálka eða snjóþekja og sums staðar þæfingsfærð og skafrenningur. Ófært er á Hófaskarði en þungfært á Hólaheiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert