Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, sótti um embætti ríkislögreglustjóra áður en umsóknarfresturinn rann út á föstudaginn. Þetta staðfestir Halla Bergþóra í samtali við mbl.is.
„Ég hef áhuga á lögreglumálum og þarna eru tækifæri til að vinna enn frekar að þeim auk þess að efla lögregluna og samheldni,“ segir Halla Bergþóra um ástæðu þess að hún sækist eftir embættinu.
Þá hefur mbl.is greint frá því að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hafi sótt um embættið sem og Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, staðfesti við mbl.is fyrr í dag að hún hafi ekki sótt um embættið og þá hefur Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari upplýst um að hann hafi ekki sótt um embættið.