Ringulreið vinstrimanna

Árni Bergmann man tímana tvenna í umræðum um stjórnmál og …
Árni Bergmann man tímana tvenna í umræðum um stjórnmál og menningu. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er mikil ringulreið og ráðleysi í herbúðum vinstrimanna í heiminum,“ segir Árni Bergmann, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

„Þeir þurfa að bregðast við ofurvaldi þessara örfáu ofboðslega ríku og verja velferðarkerfið en finna ekki lausnir sem um munar. Mönnum virðist fyrirmunað að koma sér upp sterkri og samstilltri pólitík, eins og sést á hnignun sósíaldemókrata í Evrópu. Þeir bundu einatt traust sitt við menntun sem lyftir öllum bátum en þegar allir eru komnir í háskóla er ekki pláss fyrir alla í góðum störfum. Og þeir sem ekki komast að eru eftir skildir og geta auðveldlega orðið fóbíum og lýðskrumi að bráð. Það er ekki bjart umleikis í þessum herbúðum.“

– Hvernig finnst þér vinstri-grænum hafa vegnað í stjórnarsamstarfinu?

„Ég veit það ekki. Satt best að segja. Ég hef fyrir þó nokkru komist að þeirri niðurstöðu að maður geti ekki fundið pólitíska hreyfingu sem maður er fullkomlega ánægður með. Við erum að sumu leyti haldin þeim misskilningi að stjórnmálamenn geti gert meira en þeir hafa afl til. Staðreyndin er hins vegar sú að flokkar eru klofnir og hafa ekki sömu völd og áður; sumir hafa ekki nema brot af því fylgi sem þeir gátu áratugum saman gengið að vísu. Það er gott og gilt að setja umhverfismál á oddinn, eins velferðarmál, en hvorki hér né annars staðar er sterk og vel mótuð stefna í boði. Vel má vera að menn séu til dæmis sammála um að draga úr óþarfa neyslu og framleiðslu. En hvernig á að gera það? Það er óleystur vandi. Hver á til dæmis að segja hvað er óþarft og hvað ekki? Við gömlu vinstrimennirnir vildum verða við eðlilegum og nauðsynlegum þörfum manna og eftir klukkan fimm á daginn áttu menn að geta verið með sínum nánustu eða stundað list og menningu, eins og segir í Dúfnaveislunni. Við flöskuðum á hinn bóginn á því að ekkert er til sem heitir eðlilegar þarfir. Þær er hægt að framleiða og gróðursetja eins og annað. Þegar ég var að vaxa úr grasi þótti ekki sjálfsagt að eiga bíl en núna þurfa allir að eiga bíl, helst tvo. Einu sinni sem oftar var ég á kvöldvakt á Þjóðviljanum með Magnúsi Kjartanssyni og þá spurði hann mig: Af hverjum erum við að þræla okkur hérna út fram á nótt? Er það til þess að allir verkamenn landsins geti eignast bíl?“

Nánar er rætt við Árna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Meðal annars um orðræðu kalda stríðsins hér á landi. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert