Alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbraut við Straumsvík um klukkan 21:22 í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. RÚV segir að um banaslys sé að ræða og hefur mbl.is einnig heimildir fyrir því að svo sé. Að sögn lögreglu lauk starfi á vettvangi klukkan 23:57 og var þá hægt að opna Reykjanesbraut á ný. Slysið varð með þeim hætti að tvær bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt rákust saman og lést maður í annarri bifreiðinni. Aðrir hlutu minni háttar meiðsl.
Töluvert var um slys í umferðinni í gær en í flestum tilvikum urðu ekki slys á fólki. Klukkan 20 hafði ökumaður samband við lögreglu en vegna veðuraðstæðna hafði hann misst stjórn á bifreið sinni og ekið á ljósastaur. Var haft samband við HS Veitur vegna staursins.
Í Kópavoginum urðu tveir árekstrar um kvöldmatarleytið en í báðum tilvikum var um árekstur tveggja bifreiða að ræða. Í öðru tilvikinu var önnur bifreiðin óökufær eftir áreksturinn. Í Breiðholti rákust tvær bifreiðar saman um kvöldmatarleytið.
Bifreið var ekið aftan á aðra við hringtorg í Grafarvoginum um kvöldmatarleytið og í Mosfellsbæ var bifreið ekið í veg fyrir aðra á gatnamótum. Önnur bifreiðin var óökufær á eftir.
Um klukkan 20 var tilkynnt um slys utandyra í Austurbænum (hverfi 105). Ungur maður hafði runnið í hálku á gangstétt og var mögulega ökklabrotinn á vinstri fæti. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeildina í Fossvogi.
Mikið álag var á slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og nótt, mikið um sjúkraflutninga og eins var álag á dælubíla en ekkert alvarlegt kom upp að sögn varðstjóra.