Lögreglan á Spáni bíður niðurstöðu úr krufningu á líki 66 ára gamals Íslendings sem lést á Spáni aðfaranótt sunnudags. Stjúpsonur mannsins, sem er fertugur, er í haldi lögreglunnar vegna andlátsins.
Samkvæmt frétt Spaniaavisen mun stjúpsonurinn hafa ruðst inn á heimili móður sinnar og mannsins í Los Balcones-hverfinu í Torrevieja á þriðja tímanum á sunnudagsmorgun.
Þar munu mennirnir tveir hafa farið að rífast og endaði það með því að yngri maðurinn hrinti þeim eldri á glugga með þeim afleiðingum að hann brotnaði. Við það hlaut maðurinn marga skurði og blæddi út.
Samkvæmt heimildum Spaniaavisen mun lögregla einnig hafa fundið nokkur stungusár á líkama mannsins sem ekki er hægt að rekja til fallsins á gluggann.