Komið að lokahnykknum

Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, segist trúa því að ef kjaraviðræður komist ekki á skrið á næstu tveimur vikum geti það leitt til verkfalla. Sem kunnugt er hafa kjarasamningaviðræður BSRB við viðsemjendur gengið hægt, en kjarasamningar flestra aðildarfélaga BSRB hafa verið lausir frá því í apríl 2019.

Árni staðfestir að samninganefndir Sameykis séu komnar á fullt eftir jólafrí, en fyrirhugað er að funda með samninganefnd Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara í dag og verður annar fundur með samninganefnd ríkisins á morgun.

„Ég geri mér vonir um að menn fari nú að taka þessar viðræður fastari tökum. Það er ekkert launungarmál að það eru nokkur mál sem stoppa þetta töluvert,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið. „Það er til dæmis stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki og svokölluð leiðrétting launa milli opinbera og almenna markaðarins. Það er loforð sem við eigum frá 2016 og átti að vinnast núna og leiðréttast á sex árum,“ segir hann.

Í umfjöllun um viðræðurnar í Morgunblaðinu í dag segir hann að farið verði í að teikna upp mögulegar aðgerðir ef ekki komist skriður á viðræðurnar á næstu vikum. Þá sé stefnan að fara af stað með mildari þrýstiaðgerðir sem myndu að lokum enda í verkföllum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka