Aðstæður til leitar að Andris Kalvans á Snæfellsnesi eru erfiðar og ekki hefur verið framkvæmd skipulögð leit síðan 3. janúar. Mikið hefur snjóað á svæðinu með tilheyrandi snjóflóðahættu, auk þess sem lægðagangur hefur verið mikill á landinu öllu.
Búið er að framkvæma skipulagðar leitir á öllum þeim svæðum sem hægt er og enn er fylgst með aðstæðum til áframhaldandi leitar, en slíkt verður ákveðið í samráði við lögregluna á Vesturlandi þegar þar að kemur.
Þetta segir Ægir Þór Þórsson, sem stjórnar aðgerðum fyrir hönd björgunarsveita á svæðinu, í samtali við mbl.is. „Það er búið að leita svæðið þokkalega vel miðað við þá líkindareikninga sem við notumst við. Flest svæði eru orðin ágætlega vel leituð miðað við aðstæður en um áramót var byrjað að snjóa og svo hefur snjóað meira. Það eru orðnar frekar krefjandi aðstæður og töluverð snjóflóðahætta á köflum.“
„Eins og er höfum við bara haft nokkra klukkutíma á milli lægða og lítið hægt að gera í því. Formleg leit var síðast 3. janúar en svo hafa einhverjir haft auga með þessu, kíkt upp í fjallið með sjónaukum og slíkt, en það er mjög lítið hægt leita þetta skipulega eins og aðstæður eru núna.“
Andris er Lithái á sextugsaldri og búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Hans hefur verið leitað frá 30. desember síðastliðinn en talið er að hann hafi ekið heiman frá sér 28. desember. Ekki er vitað hver áform hans voru en talið er að hann hafi gengið á Hrútatind.