Íslenskur karlmaður sem handtekinn var í Torrevieja á Spáni í gær verður leiddur fyrir dómara á morgun. Hann er grunaður um að hafa orðið íslenskum sambýlismanni móður sinnar að bana aðfaranótt sunnudags.
Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Alicante, sem RÚV ræddi við, vill ekki svara því hvort maðurinn hafi játað sök.
Samkvæmt fréttavef Informacion mun maðurinn hafa komist inn á heimili móður sinnar og stjúpföður með því að klifra yfir vegg. Til átaka kom á milli mannanna tveggja, sem endaði með því að stjúpfaðirinn, sem var 66 ára gamall, féll á glugga með þeim afleiðingum að glugginn brotnaði.
Maðurinn hlaut fjölda áverka við fallið og lést á slysstað. Samkvæmt Informacion var fyrst um sinn talið að um manndráp af gáleysi hafi verið að ræða.
Eftir frekar rannsókn lögreglu er vitnisburður móðurinnar um atburði hins vegar ekki talinn standast. Í frétt Informacion segir að staðsetning glerbrota, sem og stungusár á líkama mannsins, sem ekki megi rekja til glerbrotanna, bendi til annars.
Lögregla bíður niðurstöðu krufningar.