„Ég held að með þessu úrræði höfum við komið í veg fyrir töluvert af innlögnum á spítalann,“ segir Sólrún Rúnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og hótelstjóri á sjúkrahóteli Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í viðtali við Morgunblaðið í liðinni viku að tilkoma sjúkrahótelsins, sem opnað var í maí síðastliðnum, hefði stytt legutíma á sjúkrahúsinu.
Sólrún segir að nýtingin á sjúkrahótelinu hafi verið mjög góð. Hún sé nú 85-87% en hafi dottið aðeins niður um jól og áramót. Alls hafa um 2.700 einstaklingar gist á sjúkrahótelinu frá því það var opnað.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sólrún að meira og minna hafi verið fullbókað á hótelinu frá opnun og hópurinn sem nýti sér þjónustuna sé afar fjölbreyttur. Hún kveðst telja að það muni um að margir flytji sig yfir á sjúkrahótelið eftir að hafa farið í aðgerðir en meira þurfi til. Meðaldvalartími á sjúkrahótelinu er 4,6 nætur.