Haugasjór og hvassviðri var við Brekknasand í Þistilfirði aðra helgina í janúar og gengu öldur lengra upp á sandinn en göngufólk bjóst við og fékk væna gusu upp að hnjám. Á sandinum veltust vatnamýsnar um, brúnir hnettir af ýmsum stærðum.
Vatnamýs eru fremur sjaldgæf fyrirbæri á Íslandi, segir á vef Náttúrufræðistofu Norðausturlands, en þær myndast þegar mosi veltist í ferskvatni vegna ölduhreyfinga í stöðuvötnum eða vegna strauma í straumvötnum. Verða þá til vöndlar, oftast kúlulaga, en geta líka verið sívalningar eða sporöskjulaga.
Vatnamýs finnast oftast við vatns- eða árbakka en hafa þó fundist í sjávarfjörum og hafa þá borist til sjávar með straumvötnum en Hafralónsá rennur til sjávar þarna við Brekknasand.