Varðskipið Þór er á leið frá Ísafirði til Flateyrar með 35 björgunarsveitarmenn um borð, auk áhafnar varðskipsins, en Þór hefur verið til taks fyrir vestan síðan á fimmtudag vegna veðurs. Tvö snjóflóð féllu á Flateyri í kvöld.
Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni fór Þór af stað frá Ísafirði klukkan 00:40 en gert er ráð fyrir að hann verði kominn á Flateyri á þriðja tímanum í nótt.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á sömuleiðis á leiðinni á Flateyri og gert er ráð fyrir að tveir sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins farið með þyrlunni.
Annað snjóflóðanna á Flateyri féll nærri a.m.k. einu íbúðarhúsi í bænum, en ekki er vitað til þess að alvarleg meiðsl hafi orðið á fólki.