Blóðugur hnífur fannst á vettvangi

Hnífurinn fannst falinn undir mottu í bíl sem maðurinn hugðist …
Hnífurinn fannst falinn undir mottu í bíl sem maðurinn hugðist flýja á en tókst ekki. Ljósmynd/Lögreglan í Alicante

Blóðugur hnífur og föt eru meðal sönnunargagna spænsku lögreglunnar í máli íslenska karlmannsins sem grunaður er um að hafa banað sambýlismanni móður sinnar á Torrevieja á Spáni aðfaranótt sunnudags, sem og um morðtilraun og hótanir gagnvart móður sinni. Hann reyndi að flýja vettvang áður en lögregla kom á staðinn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni í Alicante vegna málsins. Þar segir að nágranni hafi hringt á lögreglu vegna hugsanlegs innbrots þar sem hann hafði séð mann klifra yfir vegg við heimili í Los Balco­nes-hverf­inu í Torrevieja. Þegar lögregla mætti á staðinn tók þar á móti þeim íslensk kona, en þar var einnig alvarlega slasaður maður með fjölda stungusára, meðal annars á baki. Hann lést á vettvangi þrátt fyrir að lögregla hafi gert sitt besta til að stöðva blæðingar á meðan beðið var eftir sjúkrabíl.

Fyrst talið manndráp af gáleysi vegna tungumálaörðugleika

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var í fyrstu talið, aðallega vegna tungumálaörðugleika, að um manndráp af gáleysi hefði verið að ræða þar sem sonur konunnar hafi hrint manninum á glugga með þeim afleiðingum að hann brotnaði. 

Árásarmaðurinn var flúinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn, en hann fannst fljótlega í nágrenninu, útataður blóði. 

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar kom fljótlega í ljós að maðurinn sem lést hafði hlotið sár sín af hnífstungum. Þar segir jafnframt að konan hafi verið lögreglu fullkomlega samvinnuþýð og að framburður hennar hafi skipt sköpum í rannsókn málsins.

Atburðir reyndust hafa verið með þeim hætti að maðurinn komst inn í húsið með því að kasta gaskút í gegnum glugga heimilisins og réðst svo rakleiðis gegn stjúpföður sínum með hnífi og stakk hann ítrekað. Þegar móðirin reyndi að yfirgefa húsið otaði hann hnífnum að henni og hótaði henni að hann myndi drepa hana líka.

Losaði sig við blóðugan fatnað

Rannsókn lögreglu á vettvangi tók um 12 klukkustundir og fundust fjölmörg sönnunargögn á vettvangi. Meðal þeirra voru blóðugur hnífur, sem fannst undir mottu í bíl sem árásarmaðurinn hugðist flýja í en tókst ekki, og blóðug föt sem maðurinn hafði kastað af sér eftir að hann yfirgaf húsið. Eins og áður segir fannst hann skömmu síðar í hverfinu, þá eingöngu klæddur stuttermabol og buxur.

Maðurinn var leiddur fyrir dómara í gær og gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til réttað verður í málinu. Hann á ekki möguleika á að verða látinn laus gegn tryggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka