Ekki góðar aðstæður til skoðunar í dag

Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi.
Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Garðarsson

„Það er fólk frá okkur á leiðinni á staðinn. Veður er enn vont, það hefur skánað í Skutulsfirði en ekki eins í Önundarfirðinum,“ segir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Að sögn Tómasar verður lítið um nýjar upplýsingar um flóðin fyrr en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa metið aðstæður. „Við verðum að bíða þar til síðar í dag, en það gefur væntanlega ekki til góðrar skoðunar á flóðinu fyrr en á morgun.“

Nú er unnið að því að undirbúa þær mælingar sem fara munu fram á flóðunum sem féllu á Flateyri og Suðureyri í gærkvöldi, en samkvæmt Tómasi hafa engar fréttir borist af fleiri flóðum í hrinunni.

„Veðrið á að ganga niður hægt og bítandi þegar kemur fram yfir hádegi, en það verður hvassviðri áfram fram eftir degi. Það er byrjað að draga eitthvað úr veðurhamnum og við vonum að það gerist hratt,“ segir Tómas.

Fjögur hús hafa verið rýmd á Ísafirði, auk nokkurra húsa í dreifbýli á norðanverðum Vestfjörðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert