„Maður er svona að átta sig á atburðum næturinnar,“ segir Vigdís Erlingsdóttir, íbúi á Flateyri. Hún hlúði að móður unglingsstúlkunnar og tveimur yngri systkinum á meðan stúlkunnar var leitað eftir að tvö stór snjóflóð féllu á bæinn seint í gærkvöldi.
Vigdís segir að það sé auðvitað fyrir öllu að tekist hafi að bjarga stúlkunni, sem var grafin undir snjónum í 40 mínútur.
Varðskipið Þór sigldi með fjölskylduna á Ísafjörð en stúlkan hlaut ekki alvarlega áverka.
„Það er erfitt að koma þessum tilfinningum í orð,“ segir Vigdís sem kveðst hafa verið meira og minna í símanum í morgun þar sem reynt er að komast yfir hvað gerðist.
Áfram er óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum og Vigdís segir að það verði einfaldlega að sjá til hvert framhaldið verður.
Aðstæður á Flateyri eru áfram slæmar en vegum er lokað og appelsínugul viðvörun í gildi á Vestjörðum.
„Það er alveg blint og sést ekki á milli húsa,“ segir Vigdís.