Allir farþegar um borð í varðskipinu Þór eru komnir í land á Flateyri og farnir að sinna íbúum í fjöldahjálparstöðinni í grunnskólanum. Þetta staðfestir Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar á Flateyri, í samtali við mbl.is.
Varðskipið var komið í höfnina um hádegi en vegna hárrar sjávarstöðu og slæms veðurs á svæðinu þurfti að bíða með að flytja fólkið í land með léttabátum.
„Það gekk vel um leið og fór að fjara út,“ segir Magnús. Um borð voru m.a. liðsmenn áfallateymis Rauða krossins, auk búnaðar og birgða.
Hann var ekki staddur í fjöldahjálparstöðinni þegar mbl.is sló á þráðinn, en hluti björgunarsveitarinnar vinnur nú að undirbúningi komu þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem mun flytja allt að þrjá sjúklinga yfir á Ísafjörð til aðhlynningar.