Fleiri flóð falla í Súgandafirði

Enn eru snjóflóð að falla í Súgandafirði. Fyrir skömmu féllu þar flóð sem ollu einhverjum flóðbylgjum og krapaflóði í firðinum. Engar fréttir eru af neinu tjóni sem þau gætu hafa valdið.

Valur S. Valgeirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri, staðfesti það í samtali við mbl.is fyrir skömmu þegar hann var nýbúinn að kanna aðstæður.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingiskona er búsett á Suðureyri við Súgandafjörð og hún segir að snjóflóðin hafi fallið innar í firðinum en að þau hefðu valdið einhverjum flóðbylgjum og óróa í firðinum.

Meðfylgjandi myndskeið tók hún fyrir mbl.is skömmu til að sýna aðstæður eftir atburði gærkvöldsins. 

Uppfært kl. 13.34: 

„Þetta olli engum skaða eða neinu. Þetta er enn eitt púslið fyrir ofanflóðavaktina [hjá Veðurstofu Íslands] til að kortleggja hættu,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Snjóflóðið féll fyrir innan Norðureyri, handan Suðureyrar. Ekki er ljóst hvenær það féll en það gæti hafa gerst í nótt.

Samtals eru snjóflóðin því orðin fjögur sem hafa fallið undanfarið á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert