Grunaður um morðtilraun gagnvart móður sinni

Maðurinn réðst inn á heimili móður sinnar og sambýlismanns hennar …
Maðurinn réðst inn á heimili móður sinnar og sambýlismanns hennar í Torrevieja aðfaranótt sunnudags. Ljósmynd/Wikipedia.org

Íslenski karlmaðurinn sem nú sætir gæsluvarðhaldi í Alicante á Spáni er ekki aðeins grunaður um manndráp vegna andláts sambýlismanns móður sinnar, heldur einnig um tilraun til manndráps gagnvart móður sinni.

Þetta staðfestir Beatriz Garcia, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á Alicante, í samtali við mbl.is. Maðurinn var leiddur fyrir dómara í gær og má gera ráð fyrir því að ákæruliðirnir verði alls þrír, manndráp, tilraun til manndráps og loks hótanir í garð móðurinnar.

Maðurinn sætir, samkvæmt úrskurði dómara, gæsluvarðhaldi þar til réttað verður í málinu. Hann er fertugur og á að baki sér sakaferil á Íslandi, en maðurinn sem lést aðfaranótt sunnudags er 66 ára gamall Íslendingur.

Samkvæmt fréttum spænskra fjölmiðla af atvikum mun maðurinn hafa kom­ist inn á heim­ili móður sinn­ar og sam­býl­is­manns­ins í Torrevieja með því að klifra yfir vegg. 

Svo virðist sem til átaka hafi komið á milli mann­anna tveggja, en rúða var brot­in á vett­vangi og gler­brot á víð og dreif, sem maður­inn hafði meðal ann­ars skorist á. Í fyrstu var talið að yngri maður­inn hefði hrint þeim eldri á rúðu með þeim af­leiðing­um að hún brotnaði og hann hefði hlotið fjölda skurða og blætt út, en sam­kvæmt In­formacion mun það hafa verið vitn­is­b­urður móður­inn­ar um at­vik næt­ur­inn­ar.

Við nán­ari rann­sókn lög­reglu hafi hins veg­ar komið í ljós stungusár á lík­ama manns­ins sem ekki hafi mátt rekja til gler­brot­anna.

Í sam­tali við Frétta­blaðið seg­ir móðirin In­formacion fara með rangt mál og lýs­ir at­b­urðum þannig að son­ur henn­ar hafi brot­ist inn á heim­ilið með því að kasta gaskút í gegn­um rúðuna. Hann hafi svo lagt til sam­býl­is­manns henn­ar með eggvopni og banað hon­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert