„Hún var hætt komin“

Viðbragðsaðilar að störfum hjá varðskipinu Þór er það lá við …
Viðbragðsaðilar að störfum hjá varðskipinu Þór er það lá við bryggju á Flateyri í nótt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Líðan stúlk­unn­ar sem lenti í snjóflóðinu á Flat­eyri er góð eft­ir at­vik­um. Hún ligg­ur sof­andi á Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða með móður sína sér við hlið.

„Hún var mjög þrekuð og þreytt. Hún náðist út úr her­bergi sem fyllt­ist af snjó. Hún átti mjög erfitt með önd­un út af snjófargi, sem er frá öll­um hliðum,“ seg­ir Örn Er­lend­ur Inga­son, lækn­ir á Ísaf­irði.

Hann bend­ir á að snjór­inn sem fylg­ir snjóflóðum sé þykk­ur og fá þeir sem lenda í slíku mikið farg á sig. Hætta er á of­kæl­ingu.

„Hún var hætt kom­in en þetta tókst vel,“ seg­ir hann og nefn­ir að stúlk­an hafi fengið fyrstu aðhlynn­ingu hjá reynd­um hjúkr­un­ar­fræðingi sem býr á Flat­eyri.

30 til 40 mín­út­ur í snjón­um

Björg­un­ar­sveit­ar­menn mokuðu stúlk­una út en hún lenti í seinna snjóflóðinu sem féll á bæ­inn. „Þeir voru komn­ir í föt­in þegar seinna snjóflóðið kem­ur og þeir koma þarna strax og ná að moka hana út. Ég held samt að hún hafi verið föst í snjó í 30 til 40 mín­út­ur.“

Örn Er­lend­ur seg­ir að enn sem komið er hafi ekk­ert al­var­legt fund­ist að stúlk­unni lík­am­lega og bend­ir allt til þess að hún muni ná sér að fullu. „En þetta er nátt­úru­lega gíf­ur­legt áfall and­lega að lenda í svona. Hún nýt­ur þess líka að vera ung og hraust,“ seg­ir hann en stúlk­an verður fimmtán ára í næsta mánuði.

Fylgst verður áfram með líðan stúlk­unn­ar og at­hugað hvort ein­hver ný ein­kenni koma fram.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert