Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að blessunarlega hafi varðskipið Þór verið í höfn á Ísafirði þegar snjóflóðin féllu á Vestfjörðum í gærkvöldi.
Hann segir að stúlkan sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri sé komin til Ísafjarðar ásamt fjölskyldu sinni eftir að þau voru flutt þangað með varðskipinu Þór.
„Þór hefur leyst landfestar á ný og er á leið aftur til Flateyrar með vistir fyrir fólkið sem þar er og eins með liðsauka frá Rauða krossinum til að sinna sálgæslu, björgunarsveitum og lögreglu til þess að létta á þeim sem þar eru og taka betur utan um fólkið sem er í Önundarfirði. Það er búið að vera lokað í einhverja daga yfir í Önundarfjörð og orðið lítið um nauðsynlegar vistir,“ segir Guðmundur, sem var í viðtali við útvarpsstöðina K100 í morgun. Hann er sjálfur um borð í skipinu.
„Fólk er bara slegið og ekki hægt að lýsa því í orðum hvernig því líður. Ég held að það sé ekki tekið of djúpt í árinni þegar maður segir að fólk er hreinlega í áfalli. Þetta er eitthvað sem kveikir á svo óþægilegum minningum í hugum svo margra að það er erfitt að koma því í orð,“ bætir hann við.
Hann segir að meta þurfið tjónið af völdum snjóflóðanna í birtingu þegar varðskipið kemur yfir í Önundarfjörð. Um borð eru meðal annars þeir sem tengjast eða eiga bátana sem sukku í höfninni.
„Það sem er mikilvægast er að við tökum hvert utan um annað og iðkum það sem Vestfirðir hafa alltaf staðið fyrir sem er samhugur.“