Flóðin á Flateyri voru mjög stór en ekki er þekkt enn sem komið er hvort þau séu ámóta og stærstu fyrri flóð, minni eða stærri. Flóðið úr Skollahvilft sást á radar á varnargarðinum og mældist á 150–200 km hraða á klst. nokkru áður en það lenti á garðinum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð skömmu eftir kl. 23 að kvöldi 14. janúar og náðu bæði út í sjó, annað úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll að hluta yfir varnargarð og á hús að Ólafstúni 14 og grófst unglingsstúlka í flóðinu. Henni var bjargað og er ekki talin alvarlega slösuð.
Flóðið úr Skollahvilft féll meðfram varnargarði og út í smábátahöfnina og olli þar miklu tjóni á bátum en ekki slysum á fólki. Þriðja snjóflóðið féll í Súgandafirði við Norðureyri og náði einnig út í sjó. Flóðbylgja af völdum þess olli skemmdum á húsum við ströndina utan og innan við höfnina á Suðureyri, en ekki slysum á fólki.
Nánari upplýsingar verða birtar um flóðin þegar tækifæri hefur gefist til að skoða þau.
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar og lögreglan hafa í nótt farið yfir þau svæði þar sem snjóflóðahætta er talin kunna að skapast og hefur fólk yfirgefið nokkra sveitabæi í öryggisskyni.