Rýma fjögur hús á Ísafirði

Mynd úr safni frá Ísafirði.
Mynd úr safni frá Ísafirði. bb.is/Sigurjón

Ákveðið hefur verið að rýma fjögur hús í Seljalandshverfi á Ísafirði. Vindur hefur verið hvass með lítils háttar hléum síðan á föstudag og vindáttin NA, býsna stöðug allan tímann. Stöðug snjósöfnun í langan tíma í sömu vindáttinni eykur snjóflóðahættuna en snjósöfnun á Ísafirði er þó talin talsvert minni en í Önundarfirði og Súgandafirði.

Húsin sem rýmd hafa verið eru undir varnargarði á Seljalandsmúla og eru næst garðinum. Hættumat gerir ráð fyrir því að ef mjög stórt snjóflóð fellur á garðinn geti gefið yfir hann og valdið tjóni.

Stór snjóflóð féllu í gærkvöldi ofan Flateyrar og í Súgandafirði og enn er talin hætta á að stór flekahlaup geti fallið. Búist er við að veður gangi smám saman niður í dag og dragi úr snjóflóðahættu síðdegis eða í kvöld.

Fólk hefur einnig verið beðið um að yfirgefa nokkur hús í dreifbýli á norðanverðum Vestfjörðum. 

Reitur 9 skv. rýmingaráætlun fyrir Ísafjörð var rýmdur vegna snjóflóðahættu fyrr í vikunni. Á reitnum er iðnaðarhúsnæði, en engin íbúðarhús.

Snjókoma og skafrenningur hefur verið í hvassri NA-átt frá því á föstudag með smá hléi á laugardagskvöld og aðfaranótt sunnudags. Dagana þar á undan var snjókoma og skafrenningur í hvassri SV-átt. Það hefur því safnast talsverður snjór í fjöll og hann er mjög lagskiptur. Fram undan er áframhaldandi NA-hríð og verður mjög hvasst, sérstaklega í kvöld og á morgun, þriðjudag.

Búast má við því að snjóflóð falli í þessu veðri og geta þau orðið nokkuð stór. Talið er að snjóflóð hafi fallið ofan í lón Reiðhjallavirkjunar í Syðridal inn af Bolungarvík kl. 12:32 í dag. Orkubú Vestfjarða tilkynnti að þá hafi hækkað í lóninu um 40 cm, og er það þekkt afleiðing snjóflóða úr hlíðinni ofan lónsins. Ekki er vitað um önnur snjóflóð á svæðinu síðasta sólarhringinn en flestir vegir hafa verið lokaðir og lítið skyggni er til fjalla og því er ólíklegt að fréttist af flóðum.

Fylgst er með snjóflóðaaðstæðum ofan við byggð, en búið er að verja þau svæði í þéttbýli á norðanverðum Vestfjörðum þar sem hætta myndi skapast fyrst við þessar aðstæður.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi.
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert