Sæta færis úr höfninni á Flateyri

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Varðskipið Þór er komið á Flateyri og sæta menn nú færis á því að ferja fólk og birgðir í land með léttabátum. Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, eru aðstæður erfiðar.

Ráðgert er að hægt verði að senda fólk og birgðir í land eftir um klukkustund.

„Þeir lóna bara þarna aðeins fyrir utan og sæta færis. Ég heyrði í þeim áðan og þá gerðu þeir ráð fyrir því að geta ferjað fólkið í land innan klukkutíma,“ segir Ásgeir.

„Bæði er mjög há sjávarstaða og einhverjir 50 hnútar, svo það er mjög hvasst.“

Uppfært kl. 14:10: Áhöfn Landhelgisgæslunnar hefur farið eina ferð með léttbátnum í land til að kanna aðstæður. Engir farþegar voru með í ferðinni en þeir munu hafa flutt einhvern búnað með sér í land. Vonast er til þess að hægt verði að flytja fólk í land fyrir klukkan þrjú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert