„Þetta er skelfilegt“

Tjónið verður metið síðar í dag á Flateyri og Suðureyri.
Tjónið verður metið síðar í dag á Flateyri og Suðureyri. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

„Þetta er skelfilegt í einu orði sagt, þetta er skelfilegt,“ segir Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar. Tjónið er mikið á Flateyri en þar voru sjö bátar í höfn.

„Það er ljóst að hafnarmannvirki hafa orðið fyrir stórtjóni en mest er þó tjón þeirra einstaklinga sem áttu þarna báta sem eru gjörsamlega farnir. Sokknir í höfninni,“ segir Guðmundur.

Af sjö bátum við höfnina var einn þeirra við hafnarkantinn og slapp sá bátur alveg, að sögn Guðmundar. „Svo voru sex bátar norðan við í bátahöfninni og þeir fóru allir.“

Tveir olíutankar voru við höfnina á Flateyri og hefur Guðmundur upplýsingar um að annar þeirra fór í sjóinn. „Ég hef ekki upplýsingar um hinn tankinn,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

Hann hefur verið í sambandi við fólk á Suðureyri og þar virðist sem hafnarmannvirki og annað hafi sloppið vel fyrir utan litla flotbryggju sem virðist hafa losnað upp en er föst við ankeri þannig að tjónið þar er óverulegt.

Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi.
Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Að sögn Guðmundar verður þetta skoðað í birtingu en vel mannað lið björgunarsveitarfólks er á staðnum og það gerir það sem hægt er að gera. „Síðan er það seinni tíma verkefni okkar að skipuleggja það hvernig við stöndum að því að hreinsa upp úr höfninni. Það er ekki tímabært eins og staðan er núna að vera með einhverjar vangaveltur um það núna. Við höfum enga yfirsýn yfir ástandið eins og er,“ segir Guðmundur í samtali við blaðamann mbl.is.

Ástandið í höfninni á Flateyri er skelfilegt segir hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Ástandið í höfninni á Flateyri er skelfilegt segir hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka