Veðurstofa Íslands segir að snjóflóðin sem féllu á Vestfjörðum á tólfta tímanum hafi verið þrjú og mjög stór. Tvö féllu við Flateyri (úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili) og eitt gegnt Suðureyri (Norðureyrarhlíð) sem skapaði flóðbylgju sem fór yfir bæinn.
Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.
Samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, sem var virkjuð í kjölfar flóðanna, hafa íbúar á Suðureyri fengið send SMS þar sem þeir eru beðnir um að halda sig frá hafnarsvæðinu, því það geti skapast hætta falli annað snjóflóð, þ.e. að flóðbylgja geti komið inn á svæðið. Á Flateyri var unglingsstúlku komið til bjargar sem hafði orðið undir flóðinu.
Óvissustig hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og hættustig vegna snjóflóða á Ísafirði, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.
Björgunarsveitarmenn eru á vettvangi og þá er von á varðskipinu Þór frá Ísafirði til Flateyrar með 35 björgunarsveitarmenn til viðbótar.
Snjóflóð féllu á Flateyri og við Súgandafjörð um miðnætto. Engin alvarleg slys hafa orðið á fólki. Fólk á Flateyri er beðið um að halda kyrru fyrir heima og íbúar á Suðureyri fjarri hafnarsvæðinu.
— Icelandic Red Cross (@raudikrossinn) January 15, 2020