„Þurfum að spyrja spurninga“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við óskuðum eftir því snemma í morgun að fá stöðu mála, bæði hvernig hefði gengið í nótt og framhald mála,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Hún sat fund í samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð í morgun með viðbragðsaðilum vegna snjóflóða sem féllu á Flateyri og Suðureyri seint í gærkvöldi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat einnig fundinn.

Eins og fram hefur komið í fréttum í morgun fór annað flóðið sem féll við Flateyri á hús við Ólafstún 14 þar sem bjarga þurfti unglingsstúlku úr flóðinu.

Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi. Annað þeirra …
Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi. Annað þeirra fór á húsið við Ólafstún 14. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Áslaug Arna segir að varnargarðurinn hafi beint flóðunum annars vegar í sjóinn og hins vegar á bryggjuna og í sjóinn.

Það er þó þannig að þegar þetta fer á eitt hús þá þurfum við að spyrja spurninga. Þær upplýsingar sem við fáum er að þetta hafi farið yfir vegna krafts og hafi verið mjög afmarkað við þetta hús. Það er einu húsi of mikið. Hugur okkar er hjá öllum á svæðinu og stúlkunni sérstaklega, segir Áslaug Arna en sérfræðingar Veðurstofunnar kanna farveg og umfang flóðanna betur síðar í dag.

Mikið reynt á almannavarnakerfið síðustu vikur

Áslaug Arna segir að á fundinum í morgun hafi verið rætt hvernig gengið hafi fyrir vestan í nótt og áframhaldið þar, stöðuna á varnargörðunum og áframhaldandi snjóflóðahættu.

„Það hefur reynt mikið á almannavarnakerfið síðustu vikur og það er afar mikilvægt að við sjáum að kerfið sem slíkt hefur virkað vel. Við þurfum líka að sjá hvort hægt sé að gera betur,“ segir Áslaug Arna. Hún átti stuttan fund með Kjartani Þorkelssyni, settum ríkislögreglustjóra, eftir fundinn í samhæfingarmiðstöðinni í morgun þar sem farið var yfir almannavarnamál í heild sinni.

„Samhæfingarmiðstöðin heldur áfram störfum og metur ástandið í birtingu og það er afar mikilvægt þótt þetta hafi farið vel að vera áfram vakandi fyrir því hvort það sé hætta á þessu svæði eða öðrum svæðum. Þetta þarf að skoða í dag,“ segir Áslaug Arna sem segir mikla mildi að ekki fór verr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert