„Við reynum að lágmarka skaðann og bjarga því sem bjargað verður,“ segir Kjartan Jakob Hauksson frá Sjótækni.
Sex starfsmenn fyrirtækisins, þar af fjórir kafarar, munu taka þátt í að ná bátunum á flot sem lentu í snjóflóðinu sem féll á Flateyrarhöfn.
Undirbúningur er í fullum gangi og verður hópurinn kominn á Flateyri síðdegis í dag með tól og tæki. Flateyrarvegur verður orðinn fær á milli klukkan 15 og 16, samkvæmt Vegagerðinni. Að sögn Kjartans Jakobs fer morgundagurinn í að meta ástand og aðstæður. Að því loknu verður tekin ákvörðun um framhaldið og í hvaða röð hlutirnir verða unnir.
„Það eru nokkur tryggingafélög sem eru þarna með tjón. Menn þurfa að sameinast um hvernig verktilhögun á að vera,“ segir hann og reiknar með töluverðri vinnu.
Verkefnið snýst um að koma bátunum að hafnarkantinum þar sem þeir verða hífðir upp. Mismunandi vinnubrögðum er beitt á milli báta. Auðveldast er að eiga við plastbátana, að sögn Kjartans. Einnig verður athugað með ýmsan vélbúnað og reynt að koma honum í gang.
Sérfræðingur frá Umhverfisstofnun mun hafa yfirumsjón með mengunarmálum í höfninni. Kjartan segir að hópurinn sinn verði með neyðarbúnað í för fyrir spilliefni og olíuleka en slíkt er hluti af fastabúnaði þeirra í framkvæmdum sem þessum, enda er fyrirtækið umhverfisvottað. „Við viljum tryggja að það verði ekki frekara umhverfistjón af völdum olíu.“