Óvissustigi líklega aflétt í dag

Þyrla Landhelgisgæslunnar á sveimi yfir Flateyri í gær.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á sveimi yfir Flateyri í gær. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Búist er við því að óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum verði aflétt undir hádegi í dag ef ekkert nýtt gerist í veðrinu.

Spáð er lítilli úrkomu á Vestfjörðum í dag en frá því í nótt hefur verið hvöss austanátt, sem á að ganga niður í dag.

„Við erum ekkert að flýta okkur að því núna, hann var að hvessa í nótt og snúa sér,“ segir Sveinn Brynjólfsson á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, spurður hvort aflétta eigi óvissustiginu.

Vegna þess að núna er austanátt er búist við því að snjórinn safnist öðruvísi upp. Enn er frost uppi þótt hlýtt sé á láglendi.

Spáð er tiltölulega rólegu veðri þangað til á sunnudag á landinu. Einhver éljagangur fylgir vestlægri átt sem er spáð fyrir vestan í kvöld.

Frá Flateyri.
Frá Flateyri. Ljósmynd/Steinunn Ása Sigurðardóttir

Fylgjast vel með á sunnudag

Á sunnudaginn kemur stór lægð með hlýindum og sunnanhvassviðri sem gengur hratt yfir landið. Fylgjast þarf vel með stöðu mála á Vestfjörðum vegna þess að alltaf er hætta á snjóflóðum þegar fer að hlýna snögglega.

Að sögn Sveins verða snjóflóðin sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði mæld í dag og á morgun. Unnið verður við það á meðan bjart er af degi og skyggni leyfir til að reyna að fá sem besta mynd af flóðunum og umfangi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert