Sigríður svarar Vilhjálmi Hans

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Arnþór

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafnar í nýrri greinargerð ýmsum forsendum dóms undirréttar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í landsréttarmálinu. Með því svarar hún greinargerð sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður lagði fyrir dómstólinn.

Undirréttur felldi dóm í málinu 12. mars í fyrra. Íslenska ríkið óskaði eftir endurskoðun yfirdeildar MDE á málinu. Dómstóllinn varð við þeirri ósk í september og fer málið fyrir yfirrétt MDE 5. febrúar næstkomandi.

Fjallað er um greinargerð Sigríðar í Morgunblaðinu í dag. Hún sagði af sér sem dómsmálaráðherra eftir að undirréttur MDE felldi þann dóm að annmarkar á skipan dómara í Landsrétt færu í bága við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar. Fimm dómarar af sjö voru þessarar skoðunar. Minnihlutinn skilaði séráliti og taldi þennan rétt ekki hafa verið brotinn.

Hafði ekki hliðsjón af dómi Hæstaréttar

Sigríður andmælir ýmsum forsendum dómsins. 

Meðal annars bendir hún á að MDE hafi ekki haft hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli Arnfríðar Einarsdóttur í maí 2018. Hæstiréttur hafi þá hafnað þeim málflutningi Vilhjálms að Arnfríður væri ekki löglega skipaður dómari.

Að sögn Sigríðar Á. Andersen vildu fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu …
Að sögn Sigríðar Á. Andersen vildu fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi gera breytingar á listanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hins vegar skírskoti MDE til dóma Hæstaréttar í málum Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar og Ástráðs Haraldssonar, þótt þeir dómar séu meginniðurstöðu undirréttar MDE óviðkomandi.

Um er að ræða dóma 591 og 592/2017 en Hæstiréttur dæmdi þá Jóhannesi og Ástráði miskabætur. Ástæðan var að þeir skyldu ekki verða skipaðir dómarar við Landsrétt þrátt fyrir að vera meðal þeirra 15 sem hæfnisnefndin mat hæfasta.

Hafði rannsakað málið

Í þessum dómum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði sem ráðherra ekki sinnt rannsóknarskyldu er hún lagði til fjögur önnur dómaraefni en nefndin lagði til.

Sigríður hafnar því að hafa ekki sinnt þessari skyldu sinni. Hún bendir á að umrædd 10. grein stjórnsýslulaga sé matskennd regla. Hún hafi rannsakað málið af kostgæfni og meðal annars lesið yfir gögn hæfnisnefndarinnar. Niðurstaða hennar var að 9 dómaraefni til viðbótar væru jafn hæf þeim 15 sem nefndin lagði til.

Þá kveðst Sigríður hafa fundið að vægi einstakra matsþátta við niðurröðun dómaraefna. Til dæmis hafi dómarareynsla fengið of lítið vægi og mikill munur á vægi einstakra þátta milli umsækjenda verið gagnrýniverður. Sá efsti hafi fengið 10 í einkunn fyrir menntun en sá annar hæsti aðeins fengið 1 í einkunn fyrir þann matsþátt. Nefndin hafi sjálf horfið frá þessari aðferðafræði við síðari umsagnir um dómaraefni. Hafi lagt reiknileiðina umdeildu til hliðar.

Fráleitar ásakanir um saknæma háttsemi

Í þriðja lagi andmælir Sigríður fullyrðingum í greinargerð Vilhjálms til MDE. Þar láti Vilhjálmur sér ekki nægja að vísa til dómsorða heldur beri á hana saknæma háttsemi, meðal annars spillingu og pólitísk hrossakaup. Þær fullyrðingar leitast hún við að hrekja í viðtalinu í Morgunblaðinu.

Telur hún þær ásakanir fráleitar.

Loks fer Sigríður ítarlega yfir aðkomu Alþingis að dómaravalinu. Það hafi verið almenn krafa hjá stjórn og stjórnarandstöðu að samþykkja ekki 15 tilnefningar dómaranefndarinnar óbreyttar.

Þá minnir hún á að forseti Alþingis og skrifstofustjóri Alþingis hafi útbúið minnisblað í kjölfar dóms MDE. Þar segi að þinginu sé í sjálfsvald sett hvernig það hagar atkvæðagreiðslum, í þessu tilviki um dómaraefnin. Það sé ekki hlutverk dómstóla, í þessu tilviki Hæstaréttar Íslands, að ganga inn á svið löggjafans með afskiptum af því hvernig atkvæðagreiðslur á þinginu fara fram.

Hér má lesa nánar um þetta mál á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert