Rannsókn stendur enn yfir vegna tveggja líka sem fundust á Sólheimasandi í gær að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjóns. Hann segist ekki reikna með að neitt verði að frétta fyrr en eftir helgi að aflokinni krufningu en ekki sé komin tímasetning á hana.
Tilkynning barst upphaflega um að lík konu hefði fundist skammt frá göngustíg að flugvélarflaki sem þar er að finna. Eftir að lögregluþjónar komu á staðinn var kölluð út björgunarsveit til frekari leitar og fannst lík karlmanns í kjölfarið.
Talið er að fólkið hafi verið par og kínverskir ríkisborgarar. Sendiráð Kína hefur verið upplýst um málið. Bifreið, sem talið er að fólkið hafi verið með á leigu, fannst á bílastæði við Sólheimasand. Vitað er að hún fór um Hvolsvöll á mánudaginn á austurleið.
Ekki var vitað til þess að fólk væri í vanda á þessum slóðum, en talið er að fólkið hafi orðið úti. Veður var slæmt á Suðurlandi fyrri hluta vikunnar. „Ef skoðaðar eru bara veðurathuganir frá Veðurstofunni þá blasir alveg við hvað gerðist þarna,“ segir Oddur.