Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri og mun þar sinna 17 farþegum úr rútu sem komu að slysi þegar jeppi og jepplingur rákust saman við Háöldukvísl á Skeiðarársandi, miðja vegu á milli Núpsstaðar og Skaftafells, á öðrum tímanum í dag.
Fjórir eru alvarlega slasaðir eftir áreksturinn, þar af þrjú börn. Tveir eru minna slasaðir en alls voru níu í bílunum tveimur.
Börnin eru á aldrinum 5-10 ára. Fjórði sem slasaðist alvarlega, fullorðinn einstaklingur, sat fastur í öðrum bílnum og beita þurfti klippum til að ná honum út.
Lögreglan á Suðurlandi greindi frá því skömmu fyrir klukkan 18:30 í kvöld að vinnu á vettvangi væri að ljúka og verið væri að opna fyrir umferð um Suðurlandsveg.