Fjórir á gjörgæslu eftir bílslysið

Viðbragðsaðilar á slysstað í dag.
Viðbragðsaðilar á slysstað í dag. Ljósmynd/Sigurður Gunnarsson

Fjórir erlendir ferðamenn eru á gjörgæslu Landspítalans eftir að jepplingur og jeppi rákust sam­an við Háöldu­kvísl á Skeiðar­árs­andi, miðja vegu á milli Núpsstaðar og Skafta­fells, á öðrum tím­an­um í dag.

Ferðamennirnir eru frá Suður-Kóreu og Frakklandi.

Alls voru sjö fluttir af slysstað í tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar. Jón Magnús Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir bráðalækn­inga á Land­spít­al­an­um, segir að þeir þrír sem eru minna slasaðir séu þó enn í eftirliti á bráðadeild.

Jón Magnús segir að starfsfólks spítalans hafi verið vel undirbúið, eins og alltaf þegar um hópslys er að ræða. 

Hann segir að það hafi verið pláss á gjörgæslunni og sjúklingar hafi verið færðir til innan spítalans þannig að pláss væri á bráðamóttökunni til að taka á móti hinum slösuðu.

Jón Magnús bendir á að fyrir tveimur vikum hafi verið tekin ákvörðun um að opna rými á efri hæð bráðamóttökunnar og það hafi skipt sköpum í því að mynda pláss. Af þeim sökum hafi verið hægt að takast á við þetta hópslys með eðlilegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert