Fjármagn verður aukið um 200 milljónir króna á þessu ári vegna aukinna verkefna stofnana ríkisins sem tengjast eftirliti og vörnum gegn peningaþvætti, skattrannsóknum og skatteftirliti.
Ákvörðunin er tekin í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. nóvember 2019 um aðgerðir til að auka traust á íslensku atvinnulífi, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Stofnanirnar sem um ræðir eru skatturinn (áður embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra), embætti skattrannsóknarstjóra og embætti héraðssaksóknara. Fjármunirnir munu fara í eflingu rannsókna og fjölgun rannsakenda hjá embættunum.
Eftir umræðu seint á síðasta ári um getu og stöðu eftirlitsstofnana til að sinna sínum verkefnum og bregðast við óvæntum, flóknum og umfangsmiklum verkefnum var lagt mat á útgjaldaheimildir sem til þyrftu að koma. Ákveðið var að fjármögnun verkefnanna verði tryggð með millifærslum innan málaflokka og ráðstöfunum úr varasjóði. Ákvarðanir um viðvarandi hækkun gjaldaheimilda verða teknar við gerð fjármálaáætlunar 2021-2025.