Vladimir Ashkenazy, hljómsveitarstjóri og píanóleikari, hefur dregið sig í hlé frá öllu tónleikahaldi en frá þessu greindi umboðsmaður hans, Jasper Parrott, í gær.
Ashkenazy, sem er 82 ára og er heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur verið meðal fremstu tónlistarmanna heims í meira en hálfa öld.
Hann vakti fyrst alþjóðlega athygli þegar hann hlaut önnur verðlaun í Chopin-keppninni í Varsjá árið 1955, og hann hreppti síðan fyrstu verðlaun í Queen Elisabeth-keppninni í Brussel 1956 og Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu 1962. Allar götur síðan hefur hann ferðast heimshorna á milli ásamt eiginkonu sinni, Þórunni Jóhannsdóttur, og haldið tónleika ásamt fremsta tónlistarfólki heims.
Samstarf Ashkenazys og Sinfóníuhljómsveitar Íslands spannar meira en hálfa öld. Hann kom fyrst fram með hljómsveitinni árið 1964 í píanókonserti nr. 3 eftir Rakhmanínov, og stjórnaði henni í fyrsta sinn árið 1971, í píanókonserti eftir Mozart með Daniel Barenboim í einleikshlutverki. Hann hefur verið heiðursstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2002 og hefur stjórnað henni í mörgum meistaraverkum tónbókmenntanna, meðal annars Stríðssálumessu Brittens, Das Lied von der Erde eftir Mahler, og Níundu sinfóníunni og Missa solemnis eftir Beethoven.
Þá flutti hann allar sinfóníur Brahms með hljómsveitinni í sérstökum „Brahms-hring“ á árunum 2014–'17. Ashkenazy gegndi lykilhlutverki í því að hvetja ráðamenn til byggingar tónlistarhúss í Reykjavík og stjórnaði opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu vorið 2011. Síðast kom hann fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tólf tónleikum í Japan í nóvember 2018. Ashkenazy var sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands í apríl 2018 fyrir framlag sitt til íslensks tónlistar- og menningarlífs.