Átakshópur bráðamóttöku skipaður

Ákvörðun um að skipa í átakshópin var tekin á fimmtudag.
Ákvörðun um að skipa í átakshópin var tekin á fimmtudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipað hefur verið í átakshóp sem ætlað er að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttöku Landspítalans og hrinda þeim í framkvæmd. Greint var frá því á fimmtudag að fundi heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans hefði lyktað með sameiginlegri ákvörðun um stofnun átakshópsins.

Er honum ætlað að skila innan fjögurra vikna skýrum tillögum um tafarlausar aðgerðir til að leysa bráðan vanda, að því er segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Er markiðið að koma í veg fyrir legu sjúklinga á bráðamóttöku vegna flæðivanda og sjá til þess að ábendingum landlæknis vegna öryggis sjúklinga verði fylgt.

Þær ábendingar komu fram í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum á fimmtudag, en þar sagði meðal annars að 40 rúm væru lokuð á bráðalegudeildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

Hópinn skipa:

Vilborg Hauksdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins

Ónefndur sérfræðingur heilbrigðisráðuneytisins á sviði gagnagreiningar

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum.

Tveir sænskir læknar með sérþekkingu á sviði bráðaþjónustu og flæðis sjúklinga innan sjúkrahúsa verða starfshópnum innan handar. Það eru Johan Permert, skurðlæknir og prófessor við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, og Magnus Castegren, sérfræðingur á sviði svæfinga- og gjörgæslulækninga við sömu stofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka