Hafin er vinna við að koma bátum, sem urðu fyrir snjóflóðinu í Flateyrarhöfn á þriðjudag, á land. Norskur kranabátur sem hefur verið í þjónustu Arnarlax í Arnarfirði kom til Flateyrar um hádegisbil í dag og verður til taks næstu tvo til þrjá daga, hið minnsta.
Sex bátar eru í höfninni, sem nauðsynlegt er að eiga við en í kvöld tókst að koma bátnum Blossa ÍS á land.
Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði og Flateyri, segir að sennilegast taki björgunaraðgerðir lengri tíma en tvo til þrjá daga þar sem útlit er fyrir að veður verði björgunarmönnum ekki hagstætt næstu daga.
Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Vestfjörðum seint í kvöld og spár gera ráð fyrir suðaustanstormi með rigningu eða mikilli slyddu og hlýnandi veðri. „Veðrið er mikill tímaþáttur hjá okkur,“ segir Guðmundur.
Tveir af bátunum sex í höfninni eru strandaðir í fjörunni, einn alveg sokkinn og þrír marra í hálfu kafi, þar af einn á hvolfi. Aðspurður segist Guðmundur ekki geta sagt til um ástand bátanna. „En þegar svona bátar sökkva eru þeir sennilega mjög illa farnir.“
Margir koma að björgunarstarfinu. Auk Guðmundar hafnarstjóra, eru 3-4 kafarar á vegum fyrirtækisins Sjótækni á svæðinu. „Síðan hafa starfsmenn á varðskipinu Þór komið til hjálpar, sem og Sigríður Kristinsdóttir hjá Umhverfisstofnun,“ segir Guðmundur.