Ómar Friðriksson
Kraftur hefur verið settur í kjaraviðræður um styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk og er stefnt að því að reyna að leiða þau mál til lykta með stífum fundarhöldum yfir alla helgina.
Samningaviðræður opinberra starfsmanna við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa ekki síst strandað á ágreiningi um fyrirkomulag vaktavinnu á umliðnum vikum og mánuðum. Náist niðurstaða í þessu máli eins og stefnt er að gæti það greitt fyrir viðræðum í fjölda kjaradeilna sem enn eru óleystar.
„Við upplifum að það sé komast gangur í þennan þátt viðræðnanna,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í gær „Við sitjum núna við og það er búið að taka frá daginn í dag og bæði laugardaginn og sunnudaginn. Við erum sammála um að við ætlum að reyna að gera atlögu að því að klára umræðuna um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu,“ segir Sonja Ýr, í Morgunblaðinu í dag.
Leitað hefur verið leiða til að ná samkomulagi um fyrirkomulag vaktavinnu og starfskjör vaktavinnufólks í starfshópi fulltrúa BSRB, BHM, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Eflingar með viðsemjendum hjá ríki, borg og Sambandi ísl. sveitarfélaga á undanförnum vikum og nú er loks komin hreyfing á þau mál.